10. október 1960, setningu Alþingis í Reykjavík. Alþingismenn ganga inn í Alþingshúsið undir mótmælaaðgerðum samtaka hernámsandstæðinga. M.a. Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í. Guðmundsson. Mótmælaspjald með slagorðunum „Samningar eru svik“. Með mótmælunum vildu samtökin þrýsta á íslensku samninganefndina, sem þá var í viðræðum við Breta um landhelgismál, um að gefa ekki eftir með 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis landið.
Apríl 1968, fjórir tónlistarmenn. F.v. eru Rögnvaldur Sigurjónsson píanóleikari, Guðrún Kristinsdóttir píanóleikari, Jórunn Viðar píanóleikari og tónskáld og Gísli Magnússon, píanóleikari. Myndataka í tilefni af tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þar sem píanóleikararnir fjórir komu fram með sveitinni.
30. mars 1949, Alþingishúsið, glerbrot á húsgögnum eftir óeirðir sem brutust út á Austurvelli daginn sem Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið.
30. mars 1949, fólk fyrir utan Alþingishúsið eftir óeirðir daginn sem Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið.
21. júlí 1958, Nauthólsvík. Fólk í sólbaði. F.v. eru Eva Kristinsdóttir, Kristín Valdemarsdóttir og Vilborg Kristjánsdóttir. Börnin eru f.v. Kristín Gunnarsdóttir, Guðrún Jóhannsdóttir og Heiða Elín Jóhannsdóttir.
23. júlí 1961, Keflavíkurflugvöllur. Rússneski geimfarinn Yuri Gagarin millilendir á Íslandi á leið sinni frá Moskvu til Havana á Kúbu. Mikill fjöldi fólks tók á móti honum en í apríl sama ár var hann fyrsti maðurinn til að fara út í geim. Gagarin fyrir miðju en með honum eru m.a. María Guðmundsdóttir ungfrú Ísland, Matthías Johannessen ritstjóri og Bergþóra Kristinsdóttir flugreyja.
23. febrúar 1961, Markarfljót, ofan við Stóra-Dímon. Vatnavextir, flóð. Mynd úr sömu myndtöku birtist á forsíðu Morgunblaðsins en þar segir: „Þessi mynd er tekin í gær austur við Markafljót nokkru ofan við Stóra-Dimon. Þar hefir 300 m skarð brostið í varnargarðinn á vestri bakka fljótsins. Mennirnir standa við flóðgátt Landeyinga. Á miðri myndinni ofan til sér í enda garðsins hinumegin við skarðið sem myndaðist. Fljótið á að renna fram þar sem sér til vinstri á myndinni.“